Elsku amma Lauga, nú hefur þú fengið hvíldina. Það er gott til þess að hugsa að nú hittir þú loksins afa eftir öll þessi ár. Við sitjum eftir með söknuð í hjarta en um leið og við fellum sorgartár gleðjumst við og huggum okkur við minningar um bestu ömmu í heimi. Við nutum þeirra forréttinda að fá að kynnast þér og eiga með þér frábærar stundir. Við fullyrðum að þú og sýn þín á lífið, léttleikinn, dugnaðurinn og bjartsýni þín hjálpaði okkur öllum að verða enn betri manneskjur. Við höfðum alltaf góða fyrirmynd í þér og búum að því alla tíð.
Amma var fædd og uppalin í Reykjavík, hún kynntist afa og giftist honum tuttugu og þriggja ára gömul. Saman fluttust þau að Fljótsdal í Fljótshlíð. Eitthvað hefur það verið sem hann afi gat heillað hana Ömmu með til þess að fá hana með sér í sveitina sem þá var nú ekki í alfaraleið. Við veltum því fyrir okkur hvernig það var fyrir unga borgardömu að flytja svona langt inn í sveit en amma sagði okkur að hún hefði aldrei verið mikið borgarbarn og að flytja í sveit hefði átt sérstaklega vel við sig. Þar sem hún hafði ekki kynnst sveitastörfum mikið vantaði að hennar sögn aðeins uppá að hún kynni til allra verka. Fékk hún því eina vinkonu sína til að koma með sér í sveitina í vikutíma, sú hafði verið í sveit og gat kennt henni það helsta sem kunna þurfti. Í Fljótshlíðinni, fyrst í Fljótsdal og síðar að Heylæk eignuðust þau sjö dætur sem eru hver annarri yndislegri. Minningar okkar tengjast því óneitanlega þessum samheldnu systrum og lífi okkar barnabarnanna sem urðum tuttugu og eitt.
Við tvær yngri systurnar, Ella og Obba munum ekkert eftir árunum inni á Heylæk en þaðan á Gulla margar og góðar minningar. Hún man eftir því að krakkarnir fengu að taka þátt í öllum sveitastörfunum og það teldist til algjörra forréttinda í dag að fá að alast upp í slíku návígi við sveitina. Hún man sérstaklega eftir búleikjunum, gamla fjósinu og að fá að fara á hestbak á Nasa gamla. Það var alltaf nóg pláss í sveitinni fyrir alla og alltaf jafn vinsælt þegar amma las sögurnar um börnin í Ólátagarði.
Á Hvolsveginum var enn lesið úr bókinni um börnin í Ólátagarði sem og úr öðrum góðum bókum. Þaðan eigum við allar góðar minningar. Við tókum þátt í heimilisstörfunum með henni ömmu og eitt af því var að færa afa morgunmat í rúmið. Í minningunni var það alltaf brauð með kæfunni sem amma bjó til. Amma stjanaði við hann á allan hátt, hún rakaði til dæmis af honum skeggið og snyrti á honum neglurnar. Rauðsokkur nútímans myndu sjálfsagt súpa hveljur en ömmu og afa virtist alltaf líða vel saman, þau voru svo ánægð hvort með annað.
Hjá ömmu og afa var oftar en ekki hægt að fá ís eða annað góðgæti á appelsínugulu diskana sem við krakkarnir notuðum hjá þeim. Búðarferðirnar með ömmu í Kaupfélagið voru líka mjög eftirminnilegar, búðingur, ávaxtahlaup og barnamatur í krukkum var eitthvað sem oft var keypt þó svo að það væri ekki á tossamiðanum sem oftar en ekki var skrifaður á dagatalsafrifu. Heima hjá ömmu mátti líka týna rifsberin af trjánum og meira að segja borða þau inni. Heimili þeirra var á þessum árum aðal samkomustaður stórfjölskyldunnar og mikið var oft glatt á hjalla, gamla orgelið var þanið, græni sófinn nýttur sem trampolín, garðurinn ævintýraland, sögubækur lesnar á hverju kvöldi, dótið í Tótubúð ótrúlega skemmtilegt og það voru svolítið aðrar og skemmtilegri reglur sem giltu á Hvolsveginum. Hjá þeim var alltaf nægur tími fyrir okkur krakkana. Oftar en ekki var tekið í spil og þá var alveg merkilegt hvað maður var heppin, amma tapaði næstum alltaf. Þau áttu fallegt og notalegt heimili, amma var alla tíð sérstaklega gestrisin og alltaf var eitthvað til með kaffinu. Amma og afi ferðuðust um á eftirminnilegum appelsínugulum SAAB og þó afi sæti undir stýri tók hún ekki minni þátt í akstrinum.
Eftir að afi féll frá fluttist amma fljótlega að Kirkjuhvoli. Þangað var ekki síður notalegt að koma. Amma var gestrisin fram á síðasta dag, meðal annars var alltaf nammi á borðum og þegar hún bauð þá var Nei, takk" ekki tekið gilt. Það voru alltaf allir velkomnir hvenær sem var og hjá henni leið öllum vel. Hún amma var sérstaklega vel með á nótunum og fylgdist alltaf vel með öllu sem var að gerast í þjóðfélaginu og ekki síður hvað var að gerast hjá öllum í fjölskyldunni. Það var einstaklega gaman að koma til ömmu og heyra sögur úr hennar lífi en ekki hafði hún minni áhuga á því að heyra hvað var að gerast hjá okkur.
Amma var mjög músíkölsk og spilaði listavel á orgel, reyndar vildi hún sjaldan leyfa fólki að hlusta á sig spila ekki frekar en að láta taka myndir af sér. Henni var ekkert vel við athygli og vildir frekar að hún beindist að öðrum en sér. En í fyrrasumar vildi svo vel til að hún ákvað að spila fyrir Ellu og Guðrúnu nokkur lög á nýja orgelið sem hún fékk þegar hún varð níræð. Þær voru alveg dolfallnar.
Sumarið 2005 er okkur sérstaklega minnistætt þá hittist öll stórfjölskyldan í tvígang og hélt veislur með ömmu. Fyrra tilefnið var níræðis afmælið hennar, hún var alltaf svo hógvær og vildi ekki láta neitt hafa fyrir sér en mikið var gaman. Við nutum öll þessa dags til hins ýtrasta. Um haustið minntumst við síðan 100 ára fæðingardags afa Sæma. Þá fórum við meðal annars öll saman inn í Hlíð, fórum inn að Hlíðarenda og að Heylæk og nutum dagsins saman í blíðskapar veðri.
Hún amma var alltaf glöð í bragði og gerði gott úr öllum sköpuðum hlut. Hún hlífði okkur krökkunum að minnsta kosti alveg við öllum leiðindum og ef eitthvað var óskýrt þá sagði hún gjarnan Það er nú bara svo margt skrýtið í henni veröld".
Í dag kveðjum við konu sem var gull af manni, hver sem var svo heppin að kynnast þér dáðist að þér og dugnaði þínum. Þú skilaðir öllu þínu með sóma og hlífðir þér aldrei við neinu og gerðir allt sem í þínu valdi stóð til þess að allir hefðu það alltaf sem best. Þú gladdist alltaf þegar vel gekk hjá okkur, ef eitthvað bjátaði á þá hvattir þú okkur til dáða og stóðst þétt við bakið á þínu fólki.
Það var svo gott að fá tækifæri til að kveðja þig og vera búin að heyra þig tala um að þú værir svo sátt við guð og menn. Þú dáðist að hópnum þínum, dætrum þínum, barnabörnum, barnabarnabörnum og fjölskyldum þeirra. Þér fannst svo leiðinlegt að geta ekki heimsótt okkur, séð heimilin okkar og tekið meiri þátt, nú breytist það. Þú skyldir ekkert í því hvers vegna í ósköpunum þú fengir að lifa svona lengi. Um áramótin þegar þú varst svo veik sagðir þú að þér væri alveg sama á hvorn veginn færi, þú vildir bara ekki liggja svona veik. Þá náðir þú nokkrum bata en nú ert þú albata og þó söknuðurinn sé mikill þá er samt svo góð tilfinning í hjörtum okkar. Minningarnar lifa áfram með okkur og ef við þekkjum þig rétt þá vakir þú nú yfir hópnum þínum og dáist af honum. Þú fékkst að deyja heima í faðmi fjölskyldunnar eins og þú vildir, sátt við að fara og nú tekur afi á móti þér.
Við biðjum algóðan guð að blessa þig og minningu þína, biðjum hann að styrkja okkur öll og gefa að nú líði þér vel. Minning þín lifir í hjörtum okkar.
Þínar ömmustelpur, Elín Þorbjörg og Guðlaug Yngvadætur og fjölskyldur.
(Stytt útgáfa birtist í Morgunblaðinu)
Flokkur: Bloggar | 29.6.2007 | 12:11 (breytt 1.7.2007 kl. 11:47) | Facebook
Tenglar
Geggjaðir bloggarar
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Elsku Elín. Þetta var frábær frásögn af ömmu þinni, hún hefur verið yndisleg kona og ég vildi að ég hefði hitt hana einhvern tímann. Hugsa til ykkar.
Drífa Þöll (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 17:23
Hæ svísur
Yndisleg frásögn um ömmu Nokkur tár féllu í viðbót en ég sé sammt ekki eftir þeim fyrir hana ömmu.
Bið að heilsa í kotið.
Kveðja Anna Rún
Anna Rún og co (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 19:18
Hæ!! Las styttri útgáfuna í mogganum, vel skrifað. Votta ykkur og ykkar fjölskyldu mína samúð!
Sigga (IP-tala skráð) 1.7.2007 kl. 20:06
Hæ Hæ
Sendi ykkur , okkar innilegar samúðakveðjur , falleg grein um hana .
knús til ykkar allra
kveðja
Dagrún , Steinn og dætur
Dagrún (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 01:25
Elskurnar mínar. Við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur. Minningargreinin var mjög falleg og maður sá fyrir sér hvað hún hafði verið góð kona. Það var gott að geta knúsað ykkur í útilegunni en ég fæ vonandi fleiri knús fljótlega.
Kveðja Fanney og co.
Fanney (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 22:20
Æ hvað þetta er fallega skrifað
knús
Eydís Huld, 4.7.2007 kl. 23:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.