Afmælisbarn dagsins og vikan

Erla Jóna Hilmarsdóttir á afmæli í dag. Því miður er hún orðin það gömul að hún man ekki lengur hvenær hún er fædd og við sem yngri erum höfum að sjálfsögðu ekki hugmynd um hvað hún er gömul.erla_jona

 Um síðustu helgi var Ljósanætur-helgi í Reykjanesbæ. Flóki og foreldrar komu suður en þau tóku að sér aukavinnu hér þannig að þetta var meira svona bissness heldur en pleasure.

Við byrjuðum helgina á því að fara í verslunar og forvitnisferð til Keflavíkur. Þegar líða fór að kvöldmat hafði Nilli samband og var ákveðið að við kæmum við á skyndibitastað og gripum með okkur mat til að borða heima með þeim, Nilla, Sibbu og Flóka. Ekki vildi betur til en svo að við völdum óvart bara bitastað í stað þess að velja skyndibitastað til þess að kaupa mat á. Alveg merkilegt hvað KFC tekst ekki að reka stað af viti í Kef. En látum þetta ekki verða hundleiðinlega færslu og höldum áfram með aðra vitleysu en þessa. Sem sagt við kíktum í Kef. og borðuðum svo með Flóka og fjölsk. Rólegt kvöld á Vallargötunni. floki

 

Á laugardeginum kíktu Ágúst og Erla Jóna til okkar. Sem betur fer hafði Ronja komist í gula garndokku og tætt hana alla í sundur. Erla Jóna gat þess vegna föndrað við að leysa flækjuna frá því snemma dags og frameftir degi. Hún tók reyndar smá matarpásu en annars þurftum við lítið að hafa fyrir henni þann daginn og áttum þennan fína hnykil þegar kvöldaði. (Á myndinni sést hún með hnykilinn í þrusu sveiflu).

Á laugardagskvöldið kíktum við í Kef. sáum Garðar Thór og flugeldasýninguna. Tókum daginn snemma á sunnudegi og héldum austur fyrir fjall. Fórum á Hvolsvöll. Þar voru mamma og pabbi (Gulla og Yngvi). Pabbi kom með okkur austur að Eyvindarhólakirkju. Við erum búnar að vera á leiðinni þangað í allt sumar til þess að mála ofan í áletrun á legsteininum hjá afa Steina og ömmu. Við byrjuðum að mála en veðurguðirnir sáu til þess að við lukum verkinu ekki. Fyrir austan hittum við Erlu, systur hans pabba og ákváðum að taka góðan dag í að ljúka verkinu í vor og mæta í hópi í bústaðinn til hennar og Gísla í leiðinni. Við hittum líka Kristínu og Óla og fleira gott fólk í kirkjugarðinum. Augljóst að margir eru á fullu í haustverkunum.

Á Hvolsvelli hittum við Eyrúnu og ömmustelpuna hennar sem Úlli var svo sniðugur að skíra Guðrún Helga í höfuðið á Guðrúnu S. Helga. Hún er algjör dúlla og grallari en við féllum nú alveg í skuggann af Ronju í þeirri heimsókn.gudr_helga_ronja

 

Mamma og pabbi gistu hjá Önnu Veigu og Sæma sem eru með eindæmum gestrisin og buðu þeim að nýta húsið í fjarveru sinni að innan sem utan. Alla jafna dugar nú nýting innan hús í slíkum heimsóknum en á haustin hljómar nýting utan húss nokkuð vel fyrir berjaætur. Við semsagt fengum að týna ber í garðinum hjá þeim. Mamma og pabbi týndu nokkur kíló og við Guðrún bættum botnfylli við það til þess að geta sagst hafa tekið þátt.

Á mánudaginn komu mamma og pabbi svo með okkur hingað í Sandgerði og var kvöldið nýtt til þess að gera bæði Rifsberjahlaup af bestu gerð og hlaup úr Stikkilsberjum sem ég verð að segja að hafi komið skemmtilega á óvart.

Á þriðjudag komu svo Gulla og Malli í heimsókn, borðuð með okkur, fengu vax og Gulla sagði okkur frá fjarnámi sem hún er byrjuð í. Það er bara spennandi og frábær möguleiki. Mamma og pabbi fóru svo heim með þeim þegar kvöldaði.

Aðrir dagar og nætur nokkuð eðlilegir fyrir utan smá aðgerð sem Guðrún fór í á miðvikudag. Hún er því heima núna og tekur því rólega fram yfir helgi. Helgin annars bara spennandi útlit fyrir góða gesti og rólegheit. Von á Hjalta og Eyrúnu og vonandi fleiri félögum úr Kennó annað kvöld og amma Sigga á Bakkafirði ætlar að mæta í Sandgerði á laugardag. Gulla og Sigurjón búin að bjóða í bústað í Munaðarnesi, aldrei að vita hvort við rúntum eitthvað þangað, það er nú svona rétt í leiðinni.

Vonandi getum við gert eitthvað gagn á Norðurtúninu hjá mömmu og pabba, Guðný og Helga en þau standa í stórræðum þessa dagana. Unnið er hörðum höndum að því að leggja steina á planið og umhverfis húsið.nordurtun

 

 

 

 

Á síðustu myndinni er Magnús Yngvi í nýrri úlpu sem Elín var að reyna að mynda. Guðrún var svo ánægð með nýju sultuna að hún stökk inná myndina sem reyndar varð ekkert síðri fyrir bragðið.gudr_malli

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ha hahahah þarf alltaf að minna mann á aldur þegar það er afmæli en ég er 43 ára og ber aldurinn vel að mér finnst

Miðtún (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 00:38

2 identicon

Kveðja frá Köben.

Auður Erla (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 05:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband