Elsku amma Lauga, nú hefur þú fengið hvíldina. Það er gott til þess að hugsa að nú hittir þú loksins afa eftir öll þessi ár. Við sitjum eftir með söknuð í hjarta en um leið og við fellum sorgartár gleðjumst við og huggum okkur við minningar um bestu ömmu í heimi. Við nutum þeirra forréttinda að fá að kynnast þér og eiga með þér frábærar stundir. Við fullyrðum að þú og sýn þín á lífið, léttleikinn, dugnaðurinn og bjartsýni þín hjálpaði okkur öllum að verða enn betri manneskjur. Við höfðum alltaf góða fyrirmynd í þér og búum að því alla tíð.
Amma var fædd og uppalin í Reykjavík, hún kynntist afa og giftist honum tuttugu og þriggja ára gömul. Saman fluttust þau að Fljótsdal í Fljótshlíð. Eitthvað hefur það verið sem hann afi gat heillað hana Ömmu með til þess að fá hana með sér í sveitina sem þá var nú ekki í alfaraleið. Við veltum því fyrir okkur hvernig það var fyrir unga borgardömu að flytja svona langt inn í sveit en amma sagði okkur að hún hefði aldrei verið mikið borgarbarn og að flytja í sveit hefði átt sérstaklega vel við sig. Þar sem hún hafði ekki kynnst sveitastörfum mikið vantaði að hennar sögn aðeins uppá að hún kynni til allra verka. Fékk hún því eina vinkonu sína til að koma með sér í sveitina í vikutíma, sú hafði verið í sveit og gat kennt henni það helsta sem kunna þurfti. Í Fljótshlíðinni, fyrst í Fljótsdal og síðar að Heylæk eignuðust þau sjö dætur sem eru hver annarri yndislegri. Minningar okkar tengjast því óneitanlega þessum samheldnu systrum og lífi okkar barnabarnanna sem urðum tuttugu og eitt.
Við tvær yngri systurnar, Ella og Obba munum ekkert eftir árunum inni á Heylæk en þaðan á Gulla margar og góðar minningar. Hún man eftir því að krakkarnir fengu að taka þátt í öllum sveitastörfunum og það teldist til algjörra forréttinda í dag að fá að alast upp í slíku návígi við sveitina. Hún man sérstaklega eftir búleikjunum, gamla fjósinu og að fá að fara á hestbak á Nasa gamla. Það var alltaf nóg pláss í sveitinni fyrir alla og alltaf jafn vinsælt þegar amma las sögurnar um börnin í Ólátagarði.
Á Hvolsveginum var enn lesið úr bókinni um börnin í Ólátagarði sem og úr öðrum góðum bókum. Þaðan eigum við allar góðar minningar. Við tókum þátt í heimilisstörfunum með henni ömmu og eitt af því var að færa afa morgunmat í rúmið. Í minningunni var það alltaf brauð með kæfunni sem amma bjó til. Amma stjanaði við hann á allan hátt, hún rakaði til dæmis af honum skeggið og snyrti á honum neglurnar. Rauðsokkur nútímans myndu sjálfsagt súpa hveljur en ömmu og afa virtist alltaf líða vel saman, þau voru svo ánægð hvort með annað.
Hjá ömmu og afa var oftar en ekki hægt að fá ís eða annað góðgæti á appelsínugulu diskana sem við krakkarnir notuðum hjá þeim. Búðarferðirnar með ömmu í Kaupfélagið voru líka mjög eftirminnilegar, búðingur, ávaxtahlaup og barnamatur í krukkum var eitthvað sem oft var keypt þó svo að það væri ekki á tossamiðanum sem oftar en ekki var skrifaður á dagatalsafrifu. Heima hjá ömmu mátti líka týna rifsberin af trjánum og meira að segja borða þau inni. Heimili þeirra var á þessum árum aðal samkomustaður stórfjölskyldunnar og mikið var oft glatt á hjalla, gamla orgelið var þanið, græni sófinn nýttur sem trampolín, garðurinn ævintýraland, sögubækur lesnar á hverju kvöldi, dótið í Tótubúð ótrúlega skemmtilegt og það voru svolítið aðrar og skemmtilegri reglur sem giltu á Hvolsveginum. Hjá þeim var alltaf nægur tími fyrir okkur krakkana. Oftar en ekki var tekið í spil og þá var alveg merkilegt hvað maður var heppin, amma tapaði næstum alltaf. Þau áttu fallegt og notalegt heimili, amma var alla tíð sérstaklega gestrisin og alltaf var eitthvað til með kaffinu. Amma og afi ferðuðust um á eftirminnilegum appelsínugulum SAAB og þó afi sæti undir stýri tók hún ekki minni þátt í akstrinum.
Eftir að afi féll frá fluttist amma fljótlega að Kirkjuhvoli. Þangað var ekki síður notalegt að koma. Amma var gestrisin fram á síðasta dag, meðal annars var alltaf nammi á borðum og þegar hún bauð þá var Nei, takk" ekki tekið gilt. Það voru alltaf allir velkomnir hvenær sem var og hjá henni leið öllum vel. Hún amma var sérstaklega vel með á nótunum og fylgdist alltaf vel með öllu sem var að gerast í þjóðfélaginu og ekki síður hvað var að gerast hjá öllum í fjölskyldunni. Það var einstaklega gaman að koma til ömmu og heyra sögur úr hennar lífi en ekki hafði hún minni áhuga á því að heyra hvað var að gerast hjá okkur.
Amma var mjög músíkölsk og spilaði listavel á orgel, reyndar vildi hún sjaldan leyfa fólki að hlusta á sig spila ekki frekar en að láta taka myndir af sér. Henni var ekkert vel við athygli og vildir frekar að hún beindist að öðrum en sér. En í fyrrasumar vildi svo vel til að hún ákvað að spila fyrir Ellu og Guðrúnu nokkur lög á nýja orgelið sem hún fékk þegar hún varð níræð. Þær voru alveg dolfallnar.
Sumarið 2005 er okkur sérstaklega minnistætt þá hittist öll stórfjölskyldan í tvígang og hélt veislur með ömmu. Fyrra tilefnið var níræðis afmælið hennar, hún var alltaf svo hógvær og vildi ekki láta neitt hafa fyrir sér en mikið var gaman. Við nutum öll þessa dags til hins ýtrasta. Um haustið minntumst við síðan 100 ára fæðingardags afa Sæma. Þá fórum við meðal annars öll saman inn í Hlíð, fórum inn að Hlíðarenda og að Heylæk og nutum dagsins saman í blíðskapar veðri.
Hún amma var alltaf glöð í bragði og gerði gott úr öllum sköpuðum hlut. Hún hlífði okkur krökkunum að minnsta kosti alveg við öllum leiðindum og ef eitthvað var óskýrt þá sagði hún gjarnan Það er nú bara svo margt skrýtið í henni veröld".
Í dag kveðjum við konu sem var gull af manni, hver sem var svo heppin að kynnast þér dáðist að þér og dugnaði þínum. Þú skilaðir öllu þínu með sóma og hlífðir þér aldrei við neinu og gerðir allt sem í þínu valdi stóð til þess að allir hefðu það alltaf sem best. Þú gladdist alltaf þegar vel gekk hjá okkur, ef eitthvað bjátaði á þá hvattir þú okkur til dáða og stóðst þétt við bakið á þínu fólki.
Það var svo gott að fá tækifæri til að kveðja þig og vera búin að heyra þig tala um að þú værir svo sátt við guð og menn. Þú dáðist að hópnum þínum, dætrum þínum, barnabörnum, barnabarnabörnum og fjölskyldum þeirra. Þér fannst svo leiðinlegt að geta ekki heimsótt okkur, séð heimilin okkar og tekið meiri þátt, nú breytist það. Þú skyldir ekkert í því hvers vegna í ósköpunum þú fengir að lifa svona lengi. Um áramótin þegar þú varst svo veik sagðir þú að þér væri alveg sama á hvorn veginn færi, þú vildir bara ekki liggja svona veik. Þá náðir þú nokkrum bata en nú ert þú albata og þó söknuðurinn sé mikill þá er samt svo góð tilfinning í hjörtum okkar. Minningarnar lifa áfram með okkur og ef við þekkjum þig rétt þá vakir þú nú yfir hópnum þínum og dáist af honum. Þú fékkst að deyja heima í faðmi fjölskyldunnar eins og þú vildir, sátt við að fara og nú tekur afi á móti þér.
Við biðjum algóðan guð að blessa þig og minningu þína, biðjum hann að styrkja okkur öll og gefa að nú líði þér vel. Minning þín lifir í hjörtum okkar.
Þínar ömmustelpur, Elín Þorbjörg og Guðlaug Yngvadætur og fjölskyldur.
(Stytt útgáfa birtist í Morgunblaðinu)
Bloggar | 29.6.2007 | 12:11 (breytt 1.7.2007 kl. 11:47) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Síðustu þrjár vikur hafa verið fljótar að líða. Lífið hefur gengið sinn vana gang, helst hefur verið tekið á því um helgar.
1. - 3. júní - Sjómannadagshelgin. Ætlunin var að fara í útilegu en veðurspáin var allt annað en spennandi og hún rættist að þessu sinni. Rigning og rok alla helgina þannig að við vorum fegnar að vera heima. Sandgerðingar geta skammast sín fyrir hátíðarhöld og heiðrun sjómanna, það var ekki einu sinni flaggað við opinberar byggingar. En dagskráin var ansi rýr en við flögguðum og hugsuðum hlýtt til Gunna kafara, Sævars pabba hennar Bergnýja, Sævars hennar Bylgju, Ingó frænda og annarra hetja hafsins.
Vikan leið, skólaslit hjá Elínu og sviptingar í stjórn skólans. Það væri til að æra óstöðugan að fara að tala um að hér. Höldum okkur við skemmtilegri hluti hér.
8. - 10. júní - Ætlunin var að eyða helginni í Hvalfirði, okkur langaði að fara eitthvað út úr bænum en nenntum ekki að keyra í marga klukkutíma. Hvalfjörðurinn var fallegur og tjaldstæðið við Þórisstaði mjög huggulegt að sjá þar til Elín fór út úr bílnum. Þá varð hún fyrir svipaðri reynslu og Sibba hér um árið þegar hún fór út úr bílnum í Galtalæk, hún breyttist í microphone. Flugnagerið var þvílíkt að manni leið eins og mykjuskán. Ekki var um annað að ræða en að breyta ferðaáætluninni og færa sig um sel. Við ókum af stað aftur og keyrðum um Svínadalinn, mjög fallegar sveitir sem við höfðum ekki séð áður. Þar sem farið var að kvölda ákváðum við að keyra að Akranesi. Þar er þetta fína tjaldstæði og úr varð þessi fína helgi í notalegheitum. Á laugardegi fóru við á fótboltaleik, annars flokks stelpur í Reyni unnu stór sigur á ÍA stelpum. Flóki lét sig ekki vanta og kom við hjá okkur á leið sinni í Húsafell, þar sem hann og mamma hans og pabbi eyddu kvöldinu.
Erla og Fúsi kíktu líka við og borðuðu með okkur kvöldmat. Karen og Hildur létu aðeins sjá sig á leið sinni á Rokkdaga í Borgarnesi. Karen hringdi um kvöldið mjög svekkt yfir að hafa misst af hljómsveitinni "Soðin skinka" en beið spennt eftir að "Hundur í óskilum" stigi á svið. Eitthvað sem maður ætti að skoða á næsta ári kannski :)
Boltaleikur á Akranesi.
Nilli ásamt eiginkonum sínum og barni. Hann þarf tvær ef hann ætlar að ná Arnari fyrir 35 ára afmælið.
Guðrún á göngu á Langasandi að svipast um eftir gæjunum af Kútter Haraldi.
15. - 17. júní - Nú var komið að árlegri fjölskylduútilegu Guðrúnar og hennar nánustu. Við héldum sem leið lá að Laugarlandi í Holtum. Mættir voru Elín, Guðrún og Ronja, Sibba, Nilli og Flóki, Eydís, Helgi, Guðný og 3/5 af Suðurgötugenginu (Sandra Dís, Dagbjartur Heiðar og Helgi Þorsteinn), Erla, Fúsi og Ágúst Þór. En Flóki hefur nú verið með í öllum útlegum sumarsins sem er ekki slæmt afrek hjá tæplega fimm mánaða gutta.
Flottir í ferðalagi á Laugarlandi, Ágúst Þór og Flókalúsin.
Heiðurshjónin Rán og Gilli eru nýju tjaldverðirnir að Laugarlandi, það var gaman að hitta þau og við fengum frábærar móttökur. Þau flýðu reyndar til fjalla á laugardagsmorgni en Þórunn og Sigga létu sig ekki vanta í kvenfélagspartýið á laugardagskvöldinu. Á laugardagskvöldið fengum við líka góða nágranna í rjóðrið hjá okkur þegar Ingunn og Haddi, tengdasonur Gullu Sig. mættu á svæðið. Góður laugardagur í sundi, leikjum, spilamennsku og almennum útilegu æfingum með kvissi.
Þjóðhátíðardagurinn fór að mestu í fluguát við Tangavatn þar sem ætlunin var að renna fyrir fisk í blíðskaparveðri. En við komum ekki heim með neitt nema öngulinn í rassinum. Annars bara góð helgi í góðu veðri og enn betri félagsskap.
Pæjur að veiða í Tangavatni.
Sandra og Dagbjartur að veiða.
Helgi Þorsteinn. "Afi kastar útí en ég veiði og veiði".
Þúfu-veiði-drottningin, Þórunn frá Ási, skartar hér sínu fegursta á bakkanum, klár í að landa.
Bloggar | 19.6.2007 | 21:56 (breytt kl. 22:38) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sigga talaði um að hún væri búin að hjóla fyrir síðustu mánuði og hefði engu gleymt. Hér er hún einmitt mætt á tjaldstæðið, sannur garpur.
Bloggar | 2.6.2007 | 01:33 (breytt kl. 17:24) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Einu sinni lásum við um mann sem efnaðist á því að skipta á hlutum á e-bay. Hann byrjaði á einni rauðri bréfaklemmu, skipti henni fyrir aðeins verðmætari hlut og honum fyrir annan aðeins verðmætari þangað til hann, að okkur minnir eignaðist hús.
Svolítið svipað gerðist hjá okkur...... Nema hvað við skiptum ekki á neinu og efnuðumst ekki neitt..... heldur var það keðjuverkunin sem var svipuð. Svona eitt leiðir af öðru.
Við erum með nokkur tré í garðinum hjá okkur, það þarf ekki að klippa þau eða snyrta á næstu árum en við erum með nokkra rósarunna sem tími var komin á að snyrta. Þess vegna héldum við í Ellingsen og keyptum klippur. Mjög fínar, einfaldar, ódýrar klippur.
Þar sem við vorum komnar í búðina fórum við að sjálfsögðu að labba um og skoða vöruúrvalið hjá Einari Inga og félögum og eins og við sögðum frá um daginn þá fórum við út með flaggstöng. En sögunni fylgdi ekki að við keyptum líka fellihýsi. Já, bara fellihýsi sem maður dettur oft niður á og kaupir bara, SP-langaði svo mikið að eiga þannig með okkur. En sagan er ekki öll. Mazda-6 er mjög góður bíll en það fer henni ekkert sérstaklega vel að draga 10 feta fellihýsi sem vegur tæplega tonn. Nú voru góð ráð dýr. Til að gera langa sögu stutta þá skiptum við um bíl líka. Tengdó, Davíð og fleiri voru endalaust hjálplegir við valið. Takk strákar.
Varúð! Ef þið eigið rósarunna í garðinum sem þarf að klippa þá skal ég bara lána ykkur klippurnar okkar :)
Svo þegar allar þessar græjur eru komnar fyrir utan húsið, nýklipptir rósarunnar, flaggstöng, fellihýsi og nýr bíll þá þýðir ekki að sitja heima og lesa. Á laugardagsmorgun héldum við því af stað í fyrstu ferðina. Helgi og Guðný, mamma og pabbi Guðrúnar hættu sér með okkur í fyrstu ferðina og nutum við góðs af fjölmörgum bráðnauðsynlegum atriðum sem þau bentu okkur á í ferðinni. Staðarvalið var líka innan öryggismarkanna, Hella - Árhús. Þar áttum við frábæra helgi í góðra vinahópi. Mamma og pabbi Elínar voru í Hvolsvelli og kíktu við hjá okkur. Sibba og Flóki komu og gistu fyrri nóttina hjá Helga og Guðný. Sigga, Hulda, Rán og Þórunn létu líka sjá sig og hin síðast nefnda gisti fyrri nóttina hjá okkur. Gulla, Steinar og Magnús Yngvi komu á sunnudeginum, grilluðu með okkur og Magnús Yngvi gisti hjá okkur þá nótt.
Elín fór í jarðarför, við heimsóttum ömmu Laugu á Hvolsvelli, fórum í gönguferðir og nutum þess að vera í ferðalagi.
Hér eru Guðrún og Helgi að grilla eins og þeim einum er lagið. Sibba fylgist spennt með og augljóst að við munum sjá meira af henni á tjaldstæðum landsins í sumar.
Flóki kunni rosalega vel við sig. Hann hefur ekki enn þróað með sé 101-rætur eins þær sem halda pabba hans í heljargreipum í Reykjavík.
Sibba og Flóki á góðri stund á Hellu.
Ronja, Santa Fe, Guðrún og fellihýsið sem Jæja-konur kalla "Rósarunnann".
Sigga hefur aldrei átt í vandræðum með að æsa upp börn. Flóki naut góðs af því og var þvílíkt hrifin af henni.... og hún af honum. Bara gaman í Runnanum hjá þeim.
Svolítið mikil sól, Gulla systir, á móti sól.
Malli og Ella höfðu nóg að gera við að prófa allar græjurnar. Ronja var líka rosalega spennt yfir þessu öllu saman.
Fallegt vor á Hellu.
Við komumst að því að margt hefur breyst í "ferðalagabransanum" á undanförnum árum.
Ef við hefðum farið eftir þessu skilti þá hefðum við ekki komist inn á tjaldstæðið og líklega heldur ekki hjólhýsin (sem virðast vera það allra heitasta).
Nú finnst öllum sjálfsagt að komast í rafmagn á hverju tjaldstæði (okkur dugði vel rafmagnið af sólarsellunni, reynum að vera umhverfisvænar sjáið til :)
En sú var tíðin að fínt þótti að hægt væri að komast í rennandi vatn.
Bloggar | 31.5.2007 | 19:59 (breytt kl. 20:06) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þá er fyrsti snjór sumarsins fallinn á suðvestur horninu og reyndar vonandi sá síðasti líka.
Hvorki meira né minna en tvö afmælisbörn áttu afmæli föstudaginn 18. maí. Yngvi pabbi hennar Elínar var 72 og Þórdís Thelma fæddist nákvæmlega 70 árum síðar og varð því 2ja ára.
Á föstudaginn höfðum við því ærna ástæðu til að flagga í fyrsta skipti á stönginni góðu. Um leið flögguðum við fyrir öllum þeim sem hjálpuðu okkur við að koma henni upp.
Góðir gestir voru hjá okkur í kvöldmat, Guðrún grillaði og við áttum frábært kvöld með tengdó, tengdó, Obbu, Davíð, Magnúsi Yngva, Einari, Sirrý og Andreu Önnu. Mikið étið, spjallað og söngurinn hljómaði þó lítið færi fyrir söngvökvanum, enda alveg óþarfi að skemma gott kvöld með of miklu af honum.
Obba og Andrea Anna fóru yfir það helsta í sólgleraugnatískunni. Þær voru hæstánægðar með útkomuna.
Á laugardaginn voru gestirnir, þá sérstaklega Magnús Yngvi þjóðnýttur í garðvinnu sem Elín hefur fengið á heilann að undanförnu. Nú er helstu vorverkunum lokið. Nú þurfum við bara að losa okkur við það sem eftir er af úrgangi og gróðursetja nokkrar Fagurlaufamispilsplöntur. Reyndar eru kartöflurnar heldur ekki komnar niður, þær bíða bara þrælspíraðar og fínar í bílskúrnum. Moldin sem við fengum reyndist því miður aðallega vera möl og sandur og þar til við höfum fengið skít, I Love it, þá bíða þær enn um stund. Nóg af grænfingrasögum okkar systra. Um kvöldmat á laugardag mættu Gulla og Steinar og að sjálfsögðu var grillveisla á Vallargötunni. Magnús Yngvi, amma Gulla og Yngvi gistu fram á sunnudag en Gulla og Steinar drifu sig aftur í bæinn þegar kvöldaði.
Elín fann enn nokkuð af garðverkum á sunnudag og gat því nýtt kaldaskítinn, úrhellisrigningu og hressilegt rok til hins ýtrasta og þrælaði Magnúsi Yngva út fram yfir hádegi. Um miðjan dag var svo pönnuköku-sunnudagsstemningin rifjuð upp. Elín skutlaði gestum helgarinnar í bæinn þegar hægðist á pönnukökuátinu.
Þegar kvöldaði tók við enn ein grillveislan. Nú var komið að Þórdísi Thelmu að halda upp á afmælið sitt. Hún fékk afa Helga og ömmu Guðný til að slá upp stórveislu eins og þeim einum er lagið. .
Það hefur aldrei verið gott að láta Guðrúnu komast of nálægt börnum, það sannaðist í afmælisboðinu. Hún var fljót að kenna Þórsísi Thelmu hvernig best væri að nota nýju nærbuxurnar sem hún fékk í afmælisgjöf. Þórdís var hæstánægð með gripinn og vildi hafa þær á höfðinu eins og frænka allt kvöldið.
En helstu fjölskyldumeðlimir voru mættir að frátalinni Eydísi Balí-fara sem er að fíla'ða á Balí.
Guðrún og Ronja voru duglegar að passa sem aldrei fyrr og nýttu tækifærið til að dekra við krakkana.
Allir fengu sopann sinn. Gott að eiga stóra bræður og góða frænku.
Ronja var líka liðtæk í barnapíustörfunum þó hún gæti hvorki gefið Tinnu að drekka né lesið fyrir hana fannst henni voða gott að kúra bara hjá henni.
Annars hefur vikan verið frekar hefðbundin, nóg að gera í vinnunni og alltaf jafn gott að koma heim. Gleði Ronju og ánægjan sem hún leynir ekki er skilyrðislaus. Það virðist alltaf vera jafn gaman að fá mömmurnar sínar heim.
Góðar stundir. Kannski læt ég mynd af garðklippunum sem við keyptum í Ellingsen í síðustu viku fljóta með bloggi síðar í vikunni.
Bloggar | 23.5.2007 | 21:02 (breytt 24.5.2007 kl. 11:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Síðasta helgi var nokkuð hefðbundin. Planið var frekar rólegt en svo tíndist eitt og annað til þannig að helgin var bara frekar strembin en skemmtileg. Guðrún fór í smá aðgerð á föstudag, allir kusu, mamma Gulla lenti enn inni á spítala en fór heim í tæka tíð til að kjósa og njóta laugardagskvöldsins með fjölskyldunni, Ronja fór í klippingu og svona ýmislegt.
Eins og áður sagði þá komumst við ekki áfram í Eurovision, öllum að óvörum. En partýin hjá Obbu og Davíð klikkuðu ekki, upphitun á fimmtudag og svo nutu nördarnir sín í botn á laugardaginn. Frábærir gestgjafar og gaman að horfa á söngvakeppnina með einhverjum sem hefur svona brennandi áhuga og vit á öllum lögunum. Yngvi pabbi hennar Elínar var reyndar með bestu taktana. Hann fann sér bók og slökkti á heyrnartækjunum. Þá var laugardagskvöldið alveg fullkomnað, gott partý, skemmtilegt fólk, góður matur og besta persónan úr Spaugstofunni með okkur. Já, já, Sigfinnur mætir oft í fjölskylduboð hjá okkur þegar við eigum síst von á honum.
Ronju fannst skemmtilegast að leika við Davíð. Hún hafði álíka mikinn áhuga á tónlistinn og Yngvi afi hennar. En reyndar voru þau nú með meðal skor í Euro-leik fimmtudagskvöldsins. En uppáhalds leikur hennar á laugardagskvöldinu var að sleikja hársvörð og hálsinn á Davíð. Davíð hafði e.t.v. ekkert á móti leiknum, það eina sem kom í veg fyrir að hann drægist á langinn var mikill eyrnablástur og almennt kítl.
Svo var það vinnuvikan, sem svo skemmtilega vill til að er einungis fjögurra daga. Margt hefur gerst, við fórum meðal annar í Ellingsen þar var hugmyndin að kaupa flaggstöng, sem reyndar gekk svo vel að fá að hún er komin hálfa leið upp hér úti í garði. Ekki svo að skilja að stöngin sé hér úti í garði í 45 gráðunum, heldur eru undirstöðurnar klárar bara eftir að bæta aðeins við jarðvegsfyllinguna og reisa gripinn. En fleira fylgir oft í kaupunum ef viðskipti eiga sér stað við góða sölumenn (gott að kenna öðrum um þegar manni dettur í hug að kaupa einhverja vitleysu). Á næstu dögum höfum við kannski fréttir af því, ótrúlegt vöruúrval hjá Einari Inga og félögum. Mánudagar eru ekki alltaf til mæðu.
Miklar framkvæmdir í garðinum og frábært fólk sem hefur hjálpað okkur Einar Ingi, Helgi tengdó og Arnar bró. Takk enn og aftur innilega gæs.
Ágúst Þór hélt stórtónleika ásamt örðum nemendum Tónlistarskólans seinni partinn á miðvikudaginn. Við létum okkur ekki vanta á annars frábæra tónleika. Aðeins eitt var þess valdandi að krakkarnir nutu sín ekki til fulls og áheyrendur fengu ekki notið þess sem þeir höfðu fram að bjóða. Óþæg og illa uppalin börn sem mörg hver voru í fylgd foreldra sinna sem sátu bara blýsperrtir í sínum sætum á meðan börnin höguðu sér eins og bavíanar aftast í salnum. Reynar ekki furða þó margir þessara foreldra hafi ekki þóst þekkja sín börn. Stór orð.... en lang flestir af krökkunum þarna inni voru til fyrirmyndar og stóðu sig rosalega vel allan tímann, það eru bara oft einhverjir svartir sauðir sem ná að spilla samkomum sem þessari.
Annars hefur maður verið frekar lamaður eftir sorgarfregnir sem við fengum á þriðjudaginn. Áslaug Anna vinkona okkar missti pabba sinn á mánudagskvöldið og hefur hugur okkar verið hjá þeim, henni og fjölskyldu hennar. Við sendum þeim okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Bloggar | 17.5.2007 | 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Jæja...... þá er ljóst að Sonja Bacon, aðrir rauðhærðir Evrópubúar og fjöldi íslendinga verðu að finna sér annan keppanda en Eirík rauða til að halda með. Ekki þýðir samt að hætta við að fylgjast með keppninni því annað eins tilefni til veisluhalda er fátítt, kosningar og Euro.
Annars eru heldur betri fréttir af Gullu og Yngva. Gulla reyndar með hitavellu sem þarf að skoða betur í samráði við læknana á morgun, laugardag.
En hvað á nú að kjósa, þegar stórt er spurt er oft fátt um svör. Ekki skortir svörin og stóruorðin hjá frambjóðendum sem reyndar virðast vera sammála um flest þjóðmálanna þessa daganna. Það eina sem þeir eru ekki sammála um er ágæti hvers annars.
Eitt hefur þó vakið spurningar hjá mér. Hvers vegna er frambjóðendum, sérstaklega í Reykjavík stillt upp sem pörum með stjörnur í augum. Ég finn reyndar ekki sýnishorn í bili. En þetta eru t.d. Samúel Örn og Siv í faðmlögum utan á Smáralind og Þorgerður Katrín ásamt sínum herra á stóru skilti í Kaplakrika. Er þetta einhver ný tíska í stjórnmálafræði..... lýttu út eins og þú sért að halda framhjá með meðframbjóðandanum og atkvæðin eru þín. Miðað við hefðbundna íslenska fjölskyldu er þetta kannski það sem íslendingar ná að samsama sig við. Ég veit það svei mér þá ekki.
En þangað til næst, lifið heil og gangið hægt um gleðinnar dyr.
Bloggar | 12.5.2007 | 00:31 (breytt kl. 00:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
það á ekki af mömmu og pabba Elínar að ganga. Pabbi hennar kom heim af sjúkrahúsinu í gær eins og kom fram í síðasta bloggi, bati hans á réttri leið þrátt fyrir almennan slappleika. Allir nutu sunnudagsins saman, voru hressir og kátir. Um miðja aðfaranótt mánudagsins var svo komið að mömmu hennar að skreppa á bráðabirgðardeildina (sem er einhvernvegin meira heillandi með þessu uppnefni fjölskyldunnar). Hún var með mjög slæmt gallsteinakast og eftir flutning á Hringbraut, myndatökur og nokkra klukkustunda bið á 13-G sem er einmitt gengt 13-E (sem var heitasta deildin í síðustu viku) var henni skellt á skurðarborðið og hún losuð við forljóta gallblöðru og nokkrar steina sem þar höfðu gert sig aðeins of heimakomna.
Í kvöld var hún ótrúlega hress, var strax farin að staulast aðeins um og líðan eftir atvikum mjög góð.
Gott í bili, vonum að næstu fréttir verið bara góðar.
Bloggar | 7.5.2007 | 23:11 (breytt kl. 23:11) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þá bara komið sunnudagskvöld og rétt að henda inn nokkrum línum _ _ _ _ _ _ þá er það komið
Annars er helst að frétta að í annars mjög vel heppnuðu kennarateiti á föstudaginn var ákveðið að gera þætti í anda Sex and the City. Ekki skortir hæfileikaríka leikara því þeir eiga að koma úr breiðum hópi kennara en þættina á að taka upp í Garðinum. Lítið hefur verið unnið í handritinu en heiti þáttanna verður "Kynlíf í Krummaskuði".
Reyndar tók hófið u-beygju og breyttist í frambjóðendapartý enda var mun skemmtilegra hjá Erlu Jónu og Fúsa en á kosningaskrifstofum bæjarins. En eins og kennarar og fylgifiskar þeirra hafa lært af nemendum sínum gekk þeim þó vel að halda áfram að skemmta sér og létu allt pólitískt kjaftæði fara inn um annað að út um hitt.
Í dag sunnudag var svo fermingarveizla á dagskrá, Dagmar Björk Heimisdóttir var fermd í Skálholtskirkju og öllum boðið í svaka veizlu að Borg í Grímsnesi. Frábær dagur, gott veður, gaman að hitta skyldfólkið, sjúklega góðar veitingar og allir mjög ánægðir með daginn. Pabbi hennar Elínar fékk að fara heim af sjúkrahúsinu í morgun og var þetta litla ánægður með að komast austur fyrir fjall eins og hann var búin að stefna að.
Dagmar og fjölskylda á fermingardaginn.
Bless í bili, systurnar á Vallargötunni.
Bloggar | 6.5.2007 | 23:07 (breytt kl. 23:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvað hefur verið að hrjá okkur?
Ritstífla.... nei. Kvíðaröskun, vegna þess hve langt hefur liðið og áskoranir hafa hlaðist inn.... nei. Mótþróaþrjóskuröskun.... nei. Þráhyggja.... nei. Almennur lasleiki eða flensa... nei. Fréttaleysi... nei. ? ? ?
En hvað hefur verið að gerast hjá okkur systrunum á Vallargötunni ?
Fyrst er rétt að útskýra hversvegna við köllum okkur systur. Skýringin er einföld, okkur þykir bara svo fyndin sú staðreynd að ekki ómerkari stórstjarna og fyrrum nágranni okkar Lionice (the íslenska-kryddpía og indversk prinsessa) kallaði okkur systur.
- Við hittum bekkjarfélaga Elínar úr Kennó.
- Við fórum í bústað á Flúðum. Tókum langa helgi með sumardeginum fyrsta. Þar var frábært að vera í hundabústað (fleiri stéttarfélög og eigendur sumarbústaða ættu að huga betur að húsdýrum. Þessi bústaður er alltaf upppantaður). Fengum fullt af gestum í heimsókn sem stoppuðu mis lengi; Flóki og Sibba voru með okkur í nokkrar daga, það sama átti við um Eydísi Síníör, Obba, Davíð Siggi og Kolla Kíktu við eins og Anna Rún og Arnþór Elí en Karen og Hildur og Þórunn ráku gestalestina og voru með okkur síðustu nóttina.
Fyrir ferðina kom pabbi hennar Bergnýjar færandi hendi og gaf okkur HUMAR, guð minn góður hvað hann var frábær, hann toppaði annars frábæra sumarbústaðaferð í frábæru flugdreka-vorveðri. - Amma hennar Guðrúnar varð níræð. Til hamingju með afmælið, amma!
- Við erum búnar að kaupa parket á húsið og Gulla, Steinar og Magnús Yngvi eru búin að flytja það hingað í Sandgerði fyrir okkur.
- Árni, Fanney, Gunnar Frans og Arna Kristín kíktu í heimsókn.
- Magnús Yngvi kom og gisti eina nótt.
- Vinkonur hennar Guðrúnar (þær eru líka vinkonum Elínar og Ronju, hún átti þær bara fyrst) komu í heimsókn, svona kjafta-saumaklútur. Sem reyndar var frábrugðin fyrri hittingum að nú var barnahittingur. Mjög gaman að fá hópinn í heimsókn og hitta börnin sem alltaf er verið að tala um þegar hópurinn hittist. Allir hressir, Hulda blómleg sem aldrei fyrr, henni fer rosalega vel að vera ólétt sem og Nínu sem líkaði síðasta syrpa svo vel að hún er komin af stað aftur. Til hamingju Nína.
- Signý var svo frábær að hún vatt sér í að teikna fyrir okkur eldhúsinnréttingu sem við erum svo hæst ánægðar með að nú er bara að mæta í IKEA og ganga endanlega frá þeim kaupum.
- Ágúst kom í heimsókn og lærði að sauma í.
- Píparinn ætlar svo að kíkja á fimmtudaginn eða föstudaginn (í síðustu viku :) Hann er iðnaðarmaður og lætur vonandi sá sig í vikunni. Þá ættu framkvæmdirnar að geta hafist hjá okkur á næstunni.
- Pabbi hennar Elínar var lagður inn á miðvikudaginn, hann var komin með heiftarlega þvagfærasýkingu. Hann var orðinn mjög veikur en er nú allur að koma til og ef allt gengur áfram vel í dag, laugardag 5. maí, þá nær hann að komast í ferminguna hjá Dagmar á morgun. En hann langar virkilega að komast þangað. Þær stelpurnar á Laugarvatni eru skiljanlega alltaf í svolitlu uppáhaldi hjá þeim hjónunum.
Hér koma nokkrar myndir tengdar síðustu 2 vikum...... ótrúlegur tími sem það tekur að gera allt annað en að blogga....
Hér er Hjalti sem var með Elínu í E-bekknum í Kennó. Með honum á myndinn er 87 ára kall með var á kaffihúsinu um leið og við. Hjalti er þessi litli, sköllótti með húfuna ? :)
Ronja, Guðrún og Flóki nutu sín vel í bústaðnum og voru dugleg að fara út að labba.
Sumargjöfin hennar Elínar vakti mikla hrifningu. Hér eru Guðrún, Siggi og Drekinn.
Flóki og Obba voru mjög ánægð með hvort annað.
Arnþór Elí, Anna Rún, Eydís og Flóki á Flúðum.
Gunnar Franz Árna og Fanneyjarson.
Arna Kristín systir hans að fá sér kaffi hjá Guðrúnu
Ágúst Þór kom í heimsókn og lærði að sauma í. Hann segir reyndar hverjum sem heyra vill að hann hafi verið að prjóna mynd hjá okkur.
Arnór, sonur Signýar og Alma dóttir Lóu.
Alma og Eva systir hans Arnórs.
Hulda var að sjálfsögðu líka mætt á svæðið. Þau voru öll rosalega dugleg að leika sér, bæði úti og inni.
Guðmunda, Lóustelpa var mjög áhugasöm um ljósmyndun og vildi fá að prófa myndvélina.
Hér er Sara Þórdís grallari og dóttir hennar Nínu og leika sér með Ronju.
Hér er Gurún með teppið góða sem Flóki er nú loksins búin að fá. Það er ófáar stundir á bakvið eitt svona teppi sem ylja mun Flókalúsinni um ókomna daga.
Þá er komið að takta og grettukeppni Manchester Utd. aðdáenda sem haldin var á Vallargötunni á dögunum.
Fyrsta myndin er af Magnúsi Yngva og heitir brellan: Láttu ekki bugast þó þú sért klobbaður heldur dansaðu eins og vindurinn.
Hér er Guðrún sem komst mjög langt í takta og grettukeppninni.
Hér eru auðsýnilega atvinnumenn á ferðinni.
Ein mynd að lokum. Ronja sagði: Geta þessir krakkar ekki einu sinni leikið með sitt eigið dót þegar þeir koma í heimsókn ?
Svo fylgja hér tvær "kjaftasögur" og ég verð virkilega fúl ef Jóna Sigga les þetta blogg og kvittar ekki í gestabókina eða í athugasemdir.
- Ein Jæja-kona er ólétt. Það er EKKI Elín samt sem áður erum við að tala um lágvaxna, dökkhærða, snaggaralega stúlku sem fæddist árið 1975 og ólst upp á Hellu. Ef þið erum ekki heit enn þá ættu að minnsta kosti Jæja-konur að kveikja á perunni þegar minnst er á Tour-de-France sem kom nokkuð við sögu þegar hún gekk til liðs við hópinn í Hamragörðum seint á síðustu öld.
-Sigurjón Geir er skilinn (Ekki spyrja okkur hvar eða hvernig við fréttum þetta eða hvernig okkur dettur í hug að setja þetta hér á síðuna).
Lifið heil, hlökkum til að fá línur frá ykkur.
Bloggar | 5.5.2007 | 15:11 (breytt 6.5.2007 kl. 22:52) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tenglar
Geggjaðir bloggarar
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar